Velkomin(n)

Endilega commentið þegar þið kikið við svo ég sjái hverjir eru að skoða ;)

Mismunandi gelt

Þegar rödd er löstur - hvernig á að hindra eða í það minnsta að stýra gelti og gjammi.
Endursagt og stytt eftir grein Pat Miller

Þó að hundar noti oftast nær líkamlegt látbragð til samskipta nota þeir líka röddina til að miðla upplýsingum. Við værum örugglega ánægð ef þeir geltu bara við ákveðnar aðstæður en auðvitað gera þeir það ekki. Þeir hundar sem hafa erft þá tilhneigingu til að gelta við einar aðstæður, gelta líka við aðrar. Þess vegna lendum við oft í vanda með gjamm og gelt. Óþarfa gelt birtist í ýmsum myndum og útgáfum sem hver stjórnast af ákveðnum orsökum og á sínar sérstöku lausnir. Hér að neðan eru algengustu aðstæður sem geta leitt til þess að hundur gelti og hvernig má leiðrétta það.

Hvað svo sem þú gerir, ekki gera þau mistök að kalla “ÞEGIÐU” eða verra til hundsins. Það er líklegra að það auki á æsinginn og geri aðstæðurnar lítt viðráðanlegri en að ná stjórn á þeim. Og takist þér að hræða hann til að þegja, áttu á hættu að skemma sambandið við hann þar sem hann lærir að þegja vegna hræðslu. Notaðu í staðinn hugann til að finna út hvernig á að stjórna og stýra hundinum í þessum aðstæðum.

Sem betur fer er hægt hægt að stýra gelti með því að vilja, vera samkvæmur sjálfum sér og gefa sér tíma til þess að þjálfa hundinn. Byrjaðu á að finna út við hvaða aðstæður hundurinn þinn geltir mest eða oftast og nýttu þér leiðbeiningarnar til að leiðrétta hann.

Gelt vegna leiða

Flest gelt verða vegna leiða. Þeir hundar sem gelta vegna leiða eru oft einir úti í garði allann daginn og jafnvel á kvöldin og hafa ekkert annað að gera en að “passa” upp á svæðið sitt og tilkynna veru allra og alls sem þeir verða varir við. Stundum virðist sem þeir gelti eingöngu til að heyra í sjálfum sér. Gelt vegna leiða er oft í einni tóntegund og getur staðið í fleiri klukkutíma.

Leiðrétting:
Það er auðvelt að leiðrétta, flestir þessara hunda eru miklu ánægðari inni og steinþegja. Gelt vegna leiða má minnka með því að auka hreyfingu hundsins og láta hann fá verkefni sem reyna á hugann. Lausahlaup eða boltaleikur og fylltur Kong, Iqubes eða önnur svipuð leikföng daglega geta dregið úr leiða og aðgerðaleysi yfir daginn.

Leikgjamm
Þetta eru hundar sem ráða ekki við of mikla skemmtun. Þeir eru “ klappstýrurnar” í hundaheiminum, hlaupa oft á jaðri þess svæðis sem aðrir eru á og láta vita af spennunni í sér. Fjárhundar eru oft í þessum hópi, þeir vilja stjórna og ráða þeim sem eru á hreyfingu.

Leiðrétting:
Hjá fjárhundi getur verið erfitt að stjórna þessu en nokkrar leiðir eru mögulegar.

· Sætta sig við gjammið og leyfa það en ákveða stað og stund þegar það er ásættanlegt.
· Stjórna hegðuninni og fjarlægja hundinn úr leiknum
· Nota “neikvæða refsingu”, milda tegund refsingar sem getur verið áhrifarík ef henni er beitt af samkvæmni, þ.e. alltaf. “Neikvæð refsing er þegar hegðun hundsins verður til þess að góðir hlutir hverfa. Ef til dæmis það gerist í leik (eitthvað sem hann nýtur) að hundur fer að gelta (þú vilt ekki að það gerist) þá fjarlægir þú möguleikann á að leika. Notaðu glaðlegt “úps, time-out” og fjarlægðu hann úr leiknum í stutta stund.
· Kenndu “jákvæða truflun” og notaðu það þegar hann geltir að bjóða honum til þín og stoppaðu þá geltið en slepptu honum til að fara í leikinn aftur.
· Hvettu hann til að halda á uppáhalds dótinu sínu í munninum við leik, þá er erfiðara að gjamma. Ef það gerist er það að minnsta kosti daufara.
Varúð! Ekki heppileg aðferð ef hundur passar dótið sitt fyrir öðrum hundum.

Frekjugelt
Þetta gelt pirrar síður nágrannana en getur verið verulega pirrandi fyrir þig. Hundurinn þinn er að segja “Voff voff, GEFÐU mér þetta NÚNA”. Frekjugelt kemur oft fyrir meðan reynsla er að komast á jákvæða þjálfun, þegar hundur er að finna út hvernig á að fá góða hluti til að gerast eins og verðlaun, leik eða athygli. Það byrjar oft sem kurr eða lágt gelt en getur endað í miklu, áköfu og krefjandi gelti.

Leiðrétting:
Það er auðvelt stoppa eða trufla frekjugelt í blábyrjun þess með því að veita hundinum ekki athygli. Þegar hundur geltir til að fá verðlaun, athygli eða þig til að kasta til hans bolta er einfaldast að snúa í hann baki þar til hann þagnar, segðu þá “já” og veittu honum athygli. Markmið hans er að fá þig til að gefa sér góða hluti en þitt að kenna honum að gelt lætur góða hluti hverfa. Í byrjun þarftu að nota “Já” stuttu eftir að hundurinn þagnar en þú þarft að lengja þann tíma frekar hratt til að hundurinn læri ekki “gelta, þegja smástund, fæ athygli”. Á sama tíma þarftu að styrkja það að hann gelti ekki fyrst (þ.e. noti ekki frekjugelt) til að forðast það hegðunarmynstur.

Það er erfiðara að leiðrétta frekjugelt þegar hundur hefur fengið styrkingu við því. Mundu að öll athygli sem þú veitir honum, augnsamband, snerting eða skammir, styrkir geltið – gefur honum það sem hann vill, athygli. Leiðin að því að leiðrétta gamlan vana byrjar á því að fjarlægja alla styrkingu en vertu viðbúinn slokknun, því að hegðunin versni verulega áður en hún fer að lagast. Þessi hegðun virkaði áður svo hundurinn álítur að ef hann reyni betur hljóti hún að vika á ný. Ef þú gefst upp áður en að slokknun er náð hefur þér tekist að styrkja frekjugeltið enn frekar, gettu hvað gerist næst. Rétt, hundurinn mun gelta fyrr og reyna betur og það verður enn erfiðara að leiðrétta hann. Úps!

Hættu gelt
Þetta er geltið sem tilkynnir að barnið er dottið í brunninn, eitthvað er verulega rangt að mati hundsins. Tónninn í geltinu er áríðandi eða grimmur, nokkuð sem sjaldan heyrist. Af því að mat hundsins á því hvað telst áríðandi er annað en þitt getur verið að eftir nokkur skipti hættir þú að taka mark á honum og biðjir hann um að hætta án þess að kanna málið. Ekki gera það, það gæti verið eldur í eldhúsinu.

Leiðrétting:
Kannaðu alltaf hvað er að, þó það sé bara póstur að koma að húsinu, þetta gæti verið alvarlegt. Eftir að þú hefur kannað málið notaðu jákvæða truflun til að stöðva geltið og síðan styrkirðu þögnina. Ég þakka hundunum mínum fyrir að láta mig vita að eitthvað merkilegt var að gerast.

Gelt við gestakomu
(Heil grein sem bíður betri tíma)

Gelt vegna streitu / vonbrigða
Þetta gelt þekkist á hvað það er hávært, ákefðin er mikil og það getur staðið lengi yfir.

Leiðrétting:
Þetta gelt er skylt frekjugeltinu en gerist frekar þegar þú ert í einhverri fjarlægð frá hundinum eða þegar athygli hans er beint að einhverju öðru en þér. Þú leiðréttir þetta gelt á sama hátt og frekjugeltið, hunsar þá hegðun sem þú ekki vilt (geltið) og launar þá hegðun sem þú vilt (þögn). Núna er mjög gott að nota klikker eða “já” til að markera þögnina vegna þess að þú ert oft í einhverri fjarlægð frá hundinum þegar hann geltir en líka þegar hann hættir. Styrking á þetta gelt virkar á sama hátt og styrking á frekjugeltið, því meiri sem hún hefur verið því staðfastari þarftu að vera við að leiðrétta það.

Kvíðagelt
Kvíðagelt, ýlfur eða öskur er aðeins ein af birtingarmyndum aðskilnaðarkvíða. Aðskilnaðarkvíði er flókið hegðunarferli, - skelfing eða ofsahræðsla gagntekur hundinn. Honum getur fylgt hegðun þar sem hlutir eru skemmdir, hegðun þar sem ótrúlegum kröftum er beytt til að losna úr búri, herbergi eða afmörkuðum stað, og/eða hundur pissar eða gerir stykkin sín þar sem hann er ekki vanur því (innandyra). Til að leiðrétta kvíðagelt, ýlfur eða öskur þarf að breyta eða lagfæra það sem orsakar kvíðann.

Leiðrétting:
Þó hægt sé að breyta kvíða með þjálfun þar sem hundur er vaninn hægt og rólega með sífelldri endurtekningu við því sem hann hræðist, þá þarf oft að beita annarri hjálp eða aðstoð við að ná að lagfæra ástandið. Þjálfunarferli frá hundaþjálfara eða atferlisþjálfa geta hjálpað mikið til en stundum þarf nota DAP eða kvíðastillandi lyf til að komast yfir ákveðinn þröskuld svo hundur geti slakað á. Ekki bíða með að leita aðstoðar fagfólks áður en ástandið verður svo slæmt.

Gelt er ekki alltaf slæmt.
Röddin í hundi getur verið nytsamleg, sérstaklega geltið sem lætur okkur vita að hundur þurfi að fara úr eða vilji koma inn. Sumir þjónustuhundar eru þjálfaðir í að gelta til að ná athygli eigenda sinna. Hundar vara okkur við ókunnugum og láta vita af mögulegum hættum. Ég man eftir nokkrum dæmum þegar gelt hundanna minna þjónaði góðum tilgangi, eins og þegar hestarnir sluppu úr gerðinu sínu. Ég minnist þess þegar litli pomerianinn minn stóð fyrir framan hryssu til að varna því að hún færi út um hlið sem hafði óvart verið skilið eftir opið. Þegar skræk röddin í tíkinni minni verður til þess að ég gnísti tönnum, minni ég mig á það að það munu koma tímar þegar hún mun líka nota þessa sömu rödd til að segja mér eitthvað áríðandi og ég muni verða ánægð að hún hafi þessa rödd.
Nytsamir punktar úr greininni.
Þegar hundar eldast geta þeir farið að gelta í kjölfarið á því að heyrnin fer að dofna.

Hundum gengur yfirleitt betur í þjálfun þegar þeim er sagt hvað þeir eiga að gera (“Komdu til mín og fáðu nammi) heldur en þegar þeim er sagt að gera þetta ekki (“hættu að gelta!”). Með því að beina hegðuninni á annan farveg þarf hundurinn að hugsa um nýju hegðunina frekar en að hætta þeirri sem hann var upptekin af og hann gæti hafa svarað með henni aftur (þe. gelti).

Pat Miller, CPDT, is WDJ’s Training Editor.
She is also author of The Power of Positive Dog Training, and Positive Perspectives: Love Your Dog, Train Your Dog.