Chihuahua standardinn frá FCI á Íslensku
CHIHUAHUA
(Chihuahueño)
ÞÝÐING ÚR SPÆNSKU: Brynja Tomer.
UPPRUNALAND: Mexíkó.
GILT RÆKTUNARMARKMIÐ ÚTGEFIÐ: 24.mars 2004.
EIGINLEIKAR: Heimilishundur.
FLOKKUN FCI: Tegundahópur 9. Heimilishundar og smáhundar.
Flokkur 6, Chihuahueño.
Vinnuprófa er ekki krafist.
STUTT SÖGULEG SAMANTEKT: Chihuahua, sem er álitin minnsta hundategund í heimi, dregur nafn sitt af stærsta ríki í Mexíkó (Chihuahua). Talið er að þar hafi hundarnir lifað villtir og að á tímum Tolteka hafi frumbyggjar tekið þá úr náttúrulegu umhverfi sínu og hænt þá að sér. Smáhundar sem nefndir voru Techichi héldu til í Tula og gætir áhrifa þeirra í skreytingum á byggingum frá þessum tíma. Þessum smáhundum svipar mjög til chiuhuahua eins og þeir líta út nú á tímum.
HEILDARSVIPUR: Hundurinn er þéttur að sjá. Meginmáli skiptir að höfuðið sé líkt epli í lögun og að hundurinn beri skottið hátt. Skottið er miðlungslangt, ýmist í sveig eða hálfhringað, þannig að skottendi vísar í átt að afturhryggnum.
MIKILVÆG HLUTFÖLL: Búkur er örlítið lengri en hæð hunds frá jörðu uppá herðakamb. Þó er æskilegt að hundar, sérstaklega rakkar, séu nánast ferningslaga. Tíkur mega vera búklengri í ljósi þess að þær þurfa að auka kyn sitt.
LUNDERNI: Fjörlegur, vökull, ör og mjög hugrakkur.
HÖFUÐ:
Höfuðkúpa: Vel kúpt, lík epli í lögun (sérkenni tegundarinnar). Hundar án lindarbletts (fontanelle) eru eftirsóknarverðari, þótt lítill lindarlettur sé ásættanlegur.
Ennisbrún: Áberandi, djúp og breið. Ástæðan er sú að kúpt ennið bungar út yfir trýnisrótina.
ÁSJÓNA:
Nefbroddur: Í meðallagi stuttur og vísar örlítið upp á við. Hann má vera hvernig sem er á litinn.
Trýni: Stutt og beint þegar horft er á það frá hlið. Trýnið er breiðast við rótina og mjókkar framávið. Varir: Liggja þétt saman.
Kinnar: Lítið áberandi og liggja mjög þétt að kjálkum.
Kjálki/tennur: Skærabit eða jafnt bit (tangarbit). Ef hundur hefur undirbit eða yfirbit telst það mjög alvarlegur galli og ennfremur ef kjálki er ekki er eðlilegur í lögun.
Augu: Stór og hringlaga. Augnsvipur er mjög vökull. Augu eiga aldrei að vera útstæð. Augnlitur á að vera mjög dökkur og þótt ljós augnlitur sé ásættanlegur er hann ekki æskilegur.
Eyru: Stór, upprétt og mjög opin. Þau eru breið við höfuðið, en mjókka upp á við og eru svolítið ávöl í endann. Þegar hundurinn er í hvíld vísa eyrun út til hliðanna þannig að þau mynda 45º horn.
HÁLS:
Efri hluti: Svolítið hvelfdur.
Lengd: Miðlungslangur.
Lögun: Breiðari á rökkum en tíkum.
Húð: Engar húðfellingar. Sérlega eftirsóknarvert er, á síðhærðum hundum, að löng feldhár myndi kraga á hálsinum.
BÚKUR: Þéttur og vel byggður.
Baklína: Bein.
Herðakambur: Rétt sýnilegur.
Bak: Stutt og stinnt.
Afturhryggur: Mjög vöðvastæltur.
Lendar: Breiðar og sterklegar, næstum beinar eða örlítið hallandi.
Brjóstkassi: Breiður og djúpur, með vel hvelfdum rifbeinum. Brjóstkassi á að virðast rúmgóður þegar horft er framan á hann, en þó ekki ýktur. Frá hlið sést að hann nær niður að olnbogum. Hann er aldrei tunnulaga. Kviðlína: Kviður er augljóslega uppdreginn. Slakur kviður er ásættanlegur, en ekki eftirsóknarverður.
SKOTT: Miðlungslangt og breiðast við skottrót, þannig að það mjókkar í átt að skottenda. Skottið er flatt að sjá.Hundurinn ber skottið hátt, enda er það eitt af sérkennum tegundarinnar. Á hreyfingu ber hundurinn skottið ýmist í boga eða í hálfhring þannig að skottendinn vísar í átt að afturhrygg; þannig er jafnvægi í heildarsvip hundsins, en hundur á hreyfingu á aldrei að leggja skott milli afturlappa né á skottið að liggja hringað fyrir neðan baklínu hundsins. Feldhár á skotti eru í samræmi við önnur feldhár hundsins. Skott á síðhærðum hundum minnir á fjaðraskúf. Hundurinn leggur skottið niður þegar hann er í hvíld og myndast þá svolítill krókur í endanum.
ÚTLIMIR
FRAMLEGGIR: Framfótleggir eru beinir og fremur langir. Þegar horft er framan á þá mynda þeir beina línu við olnboga og þegar horft er á þá frá hlið eru þeir lóðréttir.
Bógur: Þéttur og í meðallagi vöðvastæltur. Góðar liðbeygjur eiga að vera milli herðablaðs og efri hluta fótleggs.
Olnbogar: Sterklegir og nálægt búk til að tryggja frjálslegar hreyfingar.
Kjúkur: Svolítið hallandi, sterklegar og sveigjanlegar.
AFTURLEGGIR: Vel vöðvastæltir, langir, lóðréttir og samsíða. Góðar liðbeygjur eiga að vera við mjaðmir, hné, hækla og kjúkur, í samræmi við liðbeygjur á framleggjum.
LOPPUR: Loppur eru mjög litlar og sporöskjulaga. Svolítið bil er milli táa, en þær eiga ekki að vera glenntar. (Loppur eiga hvorki að minna á héra- né kattaloppur.) Neglur eiga að vera sérlega vel hvelfdar og hæfilega langar. Þófar eru stinnir og mjög teygjanlegir. Spora á að fjarlægja nema í löndum þar sem það er bannað samkvæmt lögum.
ATHUGASEMD: Á Íslandi er bannað að fjarlægja úlfaklær/spora.
HREYFINGAR: Chihuahua er hraðskreiður og hefur fjaðurmagnaðar, tápmiklar og kröftugar hreyfingar. Hann hefur rúman gang, góða yfirferð og spyrnir fótunum kröftuglega. Þegar horft er aftan á hundinn, eiga afturleggir að vera nánast samsíða, þannig að afturloppa stígi beint í fótspor framloppu. Þegar hundur eykur hraðann hafa allar loppur tilhneigingu til að leita í sama spor (sama þyngdarpunkt). Hreyfingar eru mjög liprar og átakalausar, höfuðburður ávallt reistur og bakið beint.
HÚÐ: Slétt og teygjanleg á öllum búknum.
FELDUR
FELDHÁR: Hundarnir geta ýmist verið snögghærðir eða síðhærðir.
- Snögghært afbrigði: Feldhár eru stutt og liggja þétt að öllum líkamanum. Hafi hundurinn undirfeld mega önnur feldhár vera svolítið lengri á kviðnum og framan á hálsi, og aðeins lengri umhverfis hálsinn og á skotti. Feldhár á trýni og eyrum eru stutt. Feldur er gljáandi og mjúkur viðkomu. Hárlausir hundar eru ekki ásættanlegir.
- Síðhært afbrigði: Feldhár eiga að vera fíngerð, silkikennd og ýmist slétt eða lítillega liðuð. Æskilegt er að undirfeldur sé ekki of þéttur. Feldhár eru löng og fjaðurkennd á eyrum, hálsi, aftan á fótleggjum, á loppum og skotti. Óásættanlegt er að feldur sé síður og dúnkendur.
LITUR: Allir feldlitir og öll litaafbrigði eru viðurkennd.
ÞYNGD: Hæð chihuahua er ekki mæld, heldur er eingöngu tekið mið af þyngd hundsins. Æskilegast er að hann sé 1,5 – 3 kg. að þyngd, en ásættanlegt að hann sé á bilinu 500 g – 1,5 kg. Óásættanlegt er að hann sé þyngri en 3 kg.
GALLAR: Öll frávik frá því sem tilgreint er hér að framan teljast vera gallar. Alvarleika galla á að meta í samræmi við áherslur í ræktunarmarkmiðinu.
- Skortur á tönnum.
- „Tvöfaldur tanngarður“ (barnatennur hjá fullorðnum hundum).
- Óeðlileg lögun kjálka.
- Oddhvöss eyru.
- Stuttur háls.
- Langur búkur.
- Sveigt eða bogið bak (söðulbak).
- Hallandi lendar.
- Mjóslegin bringa, bein rifbein.
- Skott: Röng skottstaða, stutt eða snúið skott.
- Stuttir fótleggir.
- Útstæðir olnbogar.
- Hundur sem er nágengur að aftan.
ALVARLEGIR GALLAR:
- Mjó höfuðkúpa.
- Lítil augu, djúpt í augntóftum eða útstæð.
- Langt trýni.
- Undirbit eða yfirbit.
- Hnéskeljalos.
ÓÁSÆTTANLEGIR GALLAR:
- Árásargjarn eða mjög hlédrægur hundur.
- Hundur sem minnir á hjört (hundur sem ekki er dæmigerður í vaxtarlagi, t.d. með mjótt höfuð, of langan háls, langan og grannan búk, eða of langa fótleggi).
- Hundur með stóran lindarblett.
- Hundur með lafandi eða lítil eyru.
- Mjög búklangur hundur.
- Skottlaus hundur.
- Síðhærður hundur með mjög síðan, fíngerðan og dúnkendan feld.
- Snögghærður hundur með skallabletti (alopecia).
- Hundur þyngri en 3 kg.
Hundur sem sýnir augljós merki um líkamlega eða andlega vanheilsu telst vera óræktunarhæfur og á að fá einkunnina 0.
ATUGIÐ: Rakkar eiga að hafa bæði eistun af eðlilegri stærð og rétt staðsett í pungi.
tekið af http://chihuahua.hrfi.is/