Börn, hundar og ofnæmi
Hundar eru ekki sjálfgefnir ofnæmisvaldar á fjórum fótum
Vísindarannsóknir gerðar af ýmsum aðilum og í ýmsum löndum benda til þess að ekki sé það samhengi milli ofnæmis og umgengni við hunda sem áður var talið. Frábærar fréttir fyrir hundeigendur! Mikil umgengni við hunda hefur ekki ofnæmi í för með sér.
Þetta kom meðal annars fram á ráðstefnu í Svíþjóð í fyrra. Þar var sýnt fram á með tilvísunum í fjölda skýrslna að ekki er ástæða til þess að forðast hunda vegna ótta við ofnæmi hjá börnum, jafnvel þó dæmi sé um ofnæmi í fjölskyldu barnsins.
Rannsóknir sem gerðar höfðu verið á ýmsum stöðum í Svíþjóð og á mörg hundruð heimilum sýndu, eins og rannsóknir sem farið hafa fram annars staðar í heiminum, að það er hægt að útiloka hunda sem ofnæmisvaka á heimilum. Nú er aldeilis kominn tími til að skoða upp á nýtt samhengið milli ofnæmis og umhverfis, þar með talið umgengni við dýr.
Vandinn minnkar
Enn eru þó niðurstöður þessar umdeildar meðal vísindamanna. Enn eru þeir sem halda því fram (og styðja það með rannsóknum) að sambúð með hundum auki líkur á ofnæmi hjá þeim börnum sem eru veik fyrir. Þeim vísindamönnum fjölgar sem halda því fram að umgengni við dýr minnki líkur á ofnæmi. Ónæmiskerfi líkamans verði betur í stakk búið til að verja líkamann ef áreitið er frá unga aldri.
Ein rannsóknanna sem framkvæmd var við Ostra Sjúkrahúsið í Gautaborg og barnalæknirinn Bill Hesselmark stóð fyrir, byggði á spurningalistum sem sendir voru út til 2500 fjölskyldna barna yngri en sjö ára. Niðurstaða rannsóknarinnar var að þar sem börnin höfðu umgengist hunda frá fæðingu voru minni líkur á ofnæmi en hjá jafnöldrum þeirra þar sem ekki hafði verið hundur á heimilinu.
Niðurstöðurnar komu á óvart
Þessar niðurstöður, sem voru sannarlega ekki það sem við hafði verið búist, leiddu til þess að farið var í samskonar samanburðarrannsókn sem náði til barna allt að tólf ár aldri. Niðurstöðurnar voru þær sömu. Þau börn sem höfðu ættarsögu um ofnæmi, en dýr höfðu verið á heimilinu voru síður með ofnæmi en hin sem ekki bjuggu með dýrum.
Það verður þó að taka ýmislegt annað til athugunar, segja þeir sem stóðu að þessum rannsóknum.
Lifa hundeigendur hollara lífi?
Eitt af því sem gæti t.d. haft áhrif á líkurnar á ofnæmi að sögn Hesselmark er að hundeigendur lifa betra lífi. Göngur og ferskt loft hafa jú einhver áhrif.
Það er því kannski full snemmt að halda því fram að hundurinn hafi verið blóraböggull í ofnæmismálum hingað til. Og að engin ástæða sé til að banna umgang hunda um ýmis svæði og byggingar vegna ofnæmishættu.
Eins og í öðrum heilsutengdum málum þar sem komið hafa fram “stórkostlegar” niðurstöður sem hafa átt að breyta heiminum er sjálfsagt réttast að gæta hófs.
Enn verður að vara við því að umgangast hunda ef ofnæmi hefur þegar greinst. En þó ofnæmi sé til staðar í fjölskyldunni er ekki talin vera ástæða til þess að losa sig við besta vininn, t.d. ef von er á barni.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Ef nefna skal nokkur fyrirbyggjandi ráð sem hægt er að gefa tilvonandi foreldrum sem vilja eiga hund þó vitað sé um ofnæmi í fjölskyldunni má nefna gömlu góðu húsráðin; hreint loft, heilnæmt líf, reyklaust heimili því reykingar virðast vera helsti ofnæmisvakinn. Enda eru reykingar óhollar á allan hátt.
Kettir, sum kyn öðrum fremur, geta einnig verið ofnæmisvakar. Kisu ofnæmisvakarnir virðist vera mörgum sinnum verri en hundaofnæmisvakarnir.
Síður feldur skiptir ekki máli
Það ætti þó ætíð að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir ef hundur er á heimilinu þegar von er á barni. T.d. á hundurinn ekki að hafa óheftan aðgang að öllum herbergjum hússins og að sjálfsögðu á að gæta fyllsta hreinlætis. Sérstaklega ber að varast mikla rykmyndun þar sem rykmaurar þrífast best við þær aðstæður.
Margir sem hafa rannsakað ofnæmi halda því fram að sum hundakyn séu líklegri til að valda ofnæmi en önnur. Það er þó ekki þannig að hársíddin skipti máli. Ofnæmisvakarnir sitja á húð hundsins og þar af leiðandi eru hundar sem fá mikla flösu líklegri til að valda ofnæmi en hinir. Það er þó rétt að hafa í huga að margir þættir geta haft áhrif á ofnæmi og réttast er að gæta varúðar á öllum sviðum. Ofnæmi er að mestu leiti nútímavandamál.
Bæði börn og fullorðnir geta fengið ofnæmi mjög snögglega. Og þegar það er heimilsdýrið sem veldur getur verið erfitt að ráða fram úr vandanum. Oft þarf að taka erfiða ákvörðun um að losa sig við gamlan vin og því fylgir tilheyrandi samviskubit og sárindi.
Sumir gera hvað sem er til að geta bæði átt kökuna og étið hana. Dæmi um einn slíkan er veiði- og hundamaðurinn Tage sem hannaði húsið sitt þannig að sá hluti þess sem hundarnir lifðu í var með gler-milliveggjum svo hann gat fylgst með hundunum og verið í nánum tengslum við þá innanhúss en þó hlíft sambýlingi sínum sem var með ofnæmi (Jakthunden4/2000).
Og hundeigandi til margra ára; Petter E. Renolen lýsti því í Hundsport 9/99 þegar hann fékk skyndilega asma og ofnæmi fyrir hundum og að hann, eftir margra ára baráttu, endalausar sjúkrahúsvistir og veikindi neyddist til að losa sig við hundinn sinn. Eftir að hafa verið hundlaus nokkurn tíma gafst hann þó upp og reyndi hvað hann gat til að finna kyn sem ekki ylli honum asmakasti og tókst það loks, ofnæmisfræðingum sem varað höfðu hann við til mikillar furðu. Nokkrum árum síðar skrifaði Petter svo greinina til að stappa stálinu í þá sem stæðu í sömu sporum og hann.
Þýðandi: Guðrún Jónsdóttir.
tekið af hvuttar.net